PSG er komið áfram í 16 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla en liðið tryggði sér farseðilinn þangað með því að leggja Club Brugge að velli með einu marki gegn engu í fjórðu umferð riðlakeppninnar í kvöld.

Það var argentínski framherjinn Mauro Icardi sem skoraði sigurmark Parísarliðsins sem trónir á toppi A-riðilsins með fullt hús stiga.

Real Madrid kom sér svo í þægilega stöðu með því að valta yfir Galatasaray 6-0 en þar varð Rodrygo yngsti Brasilíumaðurinn til þess að skora þrennu í Meistaradeildnni.

Bayern München fer upp úr B-riðlinum en þýska liðið hafði betur 2-0 á móti Olympiacos. Það voru Robert Lewandowski og Ivan Perisic sem skoruðu mörk Bayern München sem var að spila sinn fyrsta leik síðan félagið rak Niko Kovac.

Son Heung-min hristi af sér leiðindi helgarinnar

Tottenham Hotspur vann mikilvægan 4-0 sigur þegar liðið sótti Rauða Stjörnuna heim. Tottenham er í öðru sæti riðilsins með sjö stig eftir þennan sigur en Rauða Stjarnan kemur þar á eftir með þrjú stig.

Heung-Min Son skoraði tvö marka Tottenham í leiknum en Giovani Lo Celso kom enska liðinu á bragðið í leiknum og Christian Eriksen negldi síðasta naglann í líkkistu serbneska liðsins.

Báðir leikirnir í C-riðlinum lyktuðu með jafntefli en Atalanta og Manchester City skildu jöfn 1-1 þar sem Kyle Walker lék síðustu mínútur leiksins í marki Manchester City eftir að Claudio Bravo var vísað að velli með rauðu spjaldi.

Ederson fór meiddur af velli í fyrri hálfleik og því tók Walker sæti Bravo í markinu. Raheem Sterling skoraði mark Manchester City í leiknum en Mario Pasalic jafnaði metin fyrir Atalanta sem var að næla sér í sitt fyrsta stig í riðlakeppninni.

Manchester City og Átletico Madrid komin langleiðina áfram

Dinamo Zagreb og Shaktar Donetsk gerðu 3-3 jafntefli í dramatísku og viðburðarríkum leik. Manchester City er á toppi riðilsins með 10 stig, Shaktar Donetsk og Dinamo Zagreb hafa svo fimm stig hvort lið og Atalanta vermir botnsætið með eitt stig.

Juventus mun svo leika í 16 liða úrslitunum en liðið er á toppi D-riðilsins með 10 stig eftir 2-1 sigur á móti Lokomotiv Moskvu. Aaron Ramsey kom Juventus yfir en Aleksey Miranchuk jafnaði fyrir Lokomotiv.

Douglas Costa tryggði síðan ítalska liðinu sigurinn með marki sínu undir lok leiksins og þar af leiðandi sæti í útsláttarkeppninni. Bayer Leverkusen strengdi líflínu með 2-1 sigri á móti Atlético Madrid.

Fyrra mark Bayer Leverkusen var sjálfsmark en Kevin Volland skoraði seinna markið fyrir liðið. Álvaro Morata minnkaði hins vegar muninn fyrir Atlético Madrid sem er í öðru sæti riðilsins með sjö stig. Leverkusen og Lokomotiv hafa svo þrjú stig hvort lið.