Þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins tilkynnti í gær hvaða 23 leikmenn hefðu orðið fyrir valinu fyrir næstu leiki landsliðsins. Fram undan eru fyrstu leikir Íslands í nýrri undankeppni EM 2020 og hefur Ísland leik gegn Andorra ytra.

Það vekur athygli að það eru aðeins þrír eiginlegir framherjar í hópnum og einn þeirra, Alfreð Finnbogason, er að ná sér af meiðslum. Alfreð hefur ekkert komið við sögu með félagsliði sínu, Augsburg, síðasta mánuðinn en þjálfarateymið sagði að markmiðið væri að hann tæki þátt í leik þýska félagsins um helgina. 

Ásamt honum eru Albert Guðmundsson og Björn Bergmann Sigurðarson í hópnum. Jón Daði Böðvarsson gat ekki gefið kost á sér vegna meiðsla og þá var Kolbeinn Sigþórsson ekki valinn að þessu sinni. 

„Markmiðið er að Alfreð spili um helgina með Augsburg og ég krosslegg fingur að ekkert fari úrskeiðis,“ sagði Hamrén, aðspurður á blaðamannafundinum um þá ákvörðun að taka aðeins þrjá framherja í leikina og benti á að það væru fleiri leikmenn sem gætu skorað mörk.

„Það skiptir ekki endilega máli að framherji skori mörk heldur að liðið skori og við erum með marga leikmenn sem geta skorað mörk.“ 

Hamrén á von á tveimur erfiðum leikjum en segir að íslenska liðið fari til að vinna báða leikina.

„Þessi lið eru ákveðnar andstæður, Frakkland er risaveldi í knattspyrnuheiminum og með marga leikmenn í heimsklassa á meðan fólk býst við stórsigri gegn Andorra. Andorramenn hafa verið erfiðir heim að sækja undanfarna mánuði, aðeins tapað einum af síðustu sex heimaleikjunum og það var gegn Portúgal sem þeim tókst að stríða,“ sagði Hamrén.

„Leikurinn gegn Andorra verður stórt próf andlega og leikmennirnir vita það. Við verðum með nánast fullskipað lið og flestir þekkja það hvað þarf til að komast á stórmót. Til þess að við náum markmiðum okkar þurfum við að ná góðum úrslitum úr þessu landsleikjahléi,“ sagði Hamrén sem bíður enn eftir fyrsta sigrinum. 

„Auðvitað hefur það áhrif á mann að takast ekki að vinna leiki en spilamennskan batnaði talsvert eftir afhroðið í fyrsta leiknum,“ sagði Hamrén, aðspurður út í biðina eftir fyrsta sigrinum.