Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður á Sýn var gestur í Íþróttavikunni með Benna Bó á Hringbraut á laugardag ásamt Herði Snævar Jónssyni, íþróttastjóra á Torgi.

Rætt var um leik Liverpool og Manchester United frá síðustu helgi þar sem Liverpool vann frækinn 7-0 sigur.

„Ég veit ekki um hvaða leik þú ert að tala," sagði Hörður Snævar Jónsson sem styður United.

„Ég held að það sem bjargaði þessu var að þetta var 7-0 tap, 4-0 tap hefði verið verra. Maður getur brosað í gegnum tárin þegar tapið er svona stórt. Það er sjö stiga forskot á milli liðanna og Erik ten Hag hefur unnið fleiri titla en Jurgen Klopp gerir á þessu tímabili.“

Gaupi sem er alltaf léttur í lund er stuðningsmaður Liverpool og hafði gaman af.

„Það var þjóðhátíð í vinnunni hjá mér, ég var alltaf sannfærður um sigur Liverpool. Þetta bara gerist, Manchester United hefur verið í endurnýjun og eru á uppleið. Það hlaut að koma að því að þeir myndu hlaupa á vegg. Liverpool er að ná vopnum sínum. Það eru batamerki á liðinu, þeir eru með síst slakara lið en United.“

„Það dreymdi engan 7-0 nema einn prestur í Grafarvoginum.“

Umræðan er í heild hér að neðan.