Rihanna er orðin vön sviðsljósinu sem fylgir því að vera heimsfræg söngkona en hún viðurkennir að finna fyrir pressunni nú þegar ein stærsta stund hennar á ferlinum nálgast. Rihanna kemur fram á hálfleikssýningu Super Bowl leiksins í NFL-deildinni í byrjun næsta árs.
Tónlist Rihönnu hefur skilað henni níu Grammy verðlaunum. Hún eignaðist sitt fyrsta barn í maí fyrr á þessu ári og segist hafa þurft að hugsa sig tvisvar um þegar hún fékk boð um að koma fram á hálfleikssýningu Super Bowl leiksins, eins stærsta íþróttaviðburðar í heimi á hverju ári.
„Þetta er hins vegar áskorun sem ég er tilbúin í að takast á við og ég hlakka til," sagði Rihanna í viðtali sem var í grunnin sniðið í kringum frumsýningu á nærfatnaði sem hún hannaði.
Hún áttar sig hins vegar á stærðargráðu verkefnisins en milljónir manna munu stilla inn á beina útsendingu frá Super Bowl leiknum sem og hálfleikssýningunni sem mikið er lagt í hverju sinni.
„Þetta er stærsta stund míns ferils til þessa. Ég er stressuð," segir Rihanna en það er tilfinning sem hún finnur fyrir í hvert sinn sem hún stígur á svið. „Sér í lagi í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þar er ekki pláss fyrir mistök þannig maður verður að negla frammistöðuna.“
Margir myndu halda að tónlistarmennirnir sem koma fram á hálfleikssýningu Super Bowl fái vel borgað frá NFL deildinni en svo er í raun ekki. NFL sér um allan kostnað sem við kemur sýningunni sjálfri og því þurfa listamennirnir ekki að hugsa um það.
Aðal ábatinn fyrir listamennina sjálfa er hversu stóran áhorfendahóp Super Bowl er með. Árið 2020 kom söngkonan Shakira fram í hálfleikssýningu Super Bowl og sama ár greindi Spotify frá því að hlustun á hennar tónlist hefði aukist um 230%. Það sama ár kom Jennifer Lopez fram og hlustun á hennar tónlist fór upp um 335%.
Þá jukust tónlistartengdar tekjur Justins Timberlake um 534% sama ár og hann kom fram í hálfleikssýningu Super Bowl.