Zinedine Zidane er undir mikilli pressu þessa dagana enda sagt að starf hans sé í hættu fyrir heimsókn Real Madrid til Sevilla um helgina.

Franski knattspyrnustjórinn tók við liði Real Madrid á ný af Santiago Solari í vor, innan við ári eftir að hann steig frá borði eftir að hafa stýrt Real Madrid til sigurs þriðja árið í röð í Meistaradeild Evrópu.

Zidane fékk að styrkja leikmannahópinn all verulega í sumar og eyddi félagið yfir þrjú hundruð milljónum evra í leikmenn á borð við Eden Hazard, Luka Jovic, Rodrygo, Ferland Mendy og Eder Militao.

Þrátt fyrir það hefur spilamennska liðsins ekki batnað og fyrir heimsókn til toppliðs Sevilla um helgina er orðrómur í Madrídarborg um að Xabi Alonso taki við liðinu innan skamms.

Í fyrri stjóratíð Zidane með Real Madrid vann liðið 104 leiki af 149 eða 69,8% sigurhlutfall og níu titla á þrjátíu mánuðum en í sextán leikjum eftir að Zidane tók við liðinu á ný hefur Real unnið sjö, gert fjögur jafntefli go tapað fimm leikjum.

Það er sigurhlutfall upp á 43,75% og markatalan aðeins tvö mörk í plús eftir að Zidane tók við liðinu á ný í mars síðastliðnum.