Imke Courtois, sem lék á sínum tíma 21 landsleik fyrir Belga og er í hlutverki sérfræðings hjá belgíska sjónvarpinu á Evrópumóti kvenna í sumar, segir að það sé viss pressa á belgíska landsliðinu í aðdraganda Evrópumótsins.

Þetta er í annað skiptið sem Belgar eru meðal þátttökuþjóða á Evrópumótinu en síðast duttu þær út í riðlakeppninni eftir hreinan úrslitaleik við verðandi Evrópumeistara Hollands um sæti í útsláttarkeppninni.

„Það er viss pressa á þeim að komast áfram. Markmið liðsins er að komast að minnsta kosti í átta liða úrslitin. Þessi fyrsti leikur skiptir öllu máli. Frakkland er sterkasta lið riðilsins en við vitum að það eru góðar líkur á sigri gegn Íslandi ef við eigum góðan leik, rétt eins og gegn Ítölum,“ segir Imke þegar hún er spurð út í væntingarnar sem eru gerðar til Belganna.

Imke var sjálf hluti af liði Belga á síðasta Evrópumóti en hún hrósaði fjölbreytileikanum í íslenska liðinu.

„Það sem ég hef séð hef ég heillast af blöndu liðsins, sérstaklega á miðsvæðinu þar sem kantmennirnir eru mjög hættulegir. Þú ert með unga og efnilega leikmenn í bland við reynsluboltana,“ segir Imke og tekur undir að það séu þrjú sterk lið sem séu líklegast að fara að berjast um annað sæti riðilsins.

„Ég veit fyrir víst að þjálfari belgíska liðsins var ósáttur að fá íslenska liðið úr fjórða styrkleikaflokki, því við vissum að Ísland væri með sterkasta liðið í fjórða styrkleikaflokki.

Imke átti ekki von á neinu óvæntu í uppleggi belgíska liðsins á morgun, sem er með lægsta meðalaldurinn í riðli Íslands.

„Nei, ég á í raun ekki von á neinu óvæntu. Belgíska liðið er sterkt í skyndisóknum og liðið er gott að nýta sér bæði hraða leikmenn og hávaxna í fremstu víglínu.“