Raphael Honigstein, einn helsti knattspyrnuspekingur um þýska boltann, segir að það sé töluverð pressa á að hefja leiki í deildinni þar í landi. Honigstein var í viðtali við Sky Sport þar sem hann benti á að ef þetta mistakist hjá Þjóðverjum muni aðrar deildir trúlega feta í sömu spor. Þjóðverjar hafa ekki sparkað sín á milli síðan í mars.

„Það er pressa aðallega vegna þess að fjárhagslega þurfa liðin að spila til að fá sjónvarpspeningana. Flestar deildir horfa til Þýskalands og hvort þeim takist að ryðja brautina. Síðan er það að mega ekki mistakast. Ef þetta tekst ekki í Þýskalandi er erfitt fyrir stjórnvöld annars staðar að réttlæta að fótboltinn fari af stað.“

Þýski boltinn byrjar með látum um helgina þegar grannarnir Schalke og Dortmund hefja leik. Þýska deildin verður í beinni útsendingu á Viaplay sem er nú í boði hér á Íslandi. „Það verður frábært að fá fótboltann aftur í gang og gaman að geta loks boðið Íslendingum upp á eitthvað af þeim stórkostlegu íþróttum sem NENT Group hefur tryggt sér útsendingaréttinn að.

Auk Bundesligunnar geta Íslendingar einnig horft á NASCAR-kappaksturinn á sunnudaginn og vonandi einnig Formúlu 1 og Bundesligu-handboltann fljótlega,“ segir Kim Mikkelsen, yfirmaður íþróttasviðs NENT, í tilkynningu.

Allir leikir efstu deildar verða sýndir á Viaplay, sem og valdir leikir 2. deildar. Fyrstu þrjár viðureignirnar verða sýndar með íslenskum álitsgjöfum en aðrar viðureignir með enskum álitsgjöfum, segir í tilkynningu.