Graham Potter tók í dag við liði Brighton af Chris Hughton sem var rekinn fyrir helgi þrátt fyrir að hafa tekist að halda Brighton í efstu deild.

Undir stjórn Hughton komst Brighton upp í ensku úrvalsdeildina fyrir tveimur árum og hefur tekist að halda sæti sínu í deildinni bæði árin.

Árangur liðsins seinni hluta tímabilsins þótti valda vonbrigðum enda uppskeran aðeins ellefu stig í síðustu átján leikjum tímabilsins eftir áramót.

Potter vakti athygli enskra liða þegar hann stýrði sænska liðinu Östersunds í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar áður en hann tók við Swansea síðasta sumar.

Hann stýrði Swansea í tíunda sæti ensku Championship-deildarinnar og óskaði eftir því að fá að hefja viðræður við Brighton að tímabilinu loknu.

Brighton greiðir Swansea þrjár milljónir punda fyrir Potter.