Graham Potter er búinn að ná samkomulagi við Chelsea um að taka við liðinu af Thomasi Tuchel sem var rekinn í gær. Chelsea greiðir Brighton sextán milljónir punda fyrir knattspyrnustjórann.

Potter fundaði með Todd Boehly, eiganda Chelsea í gær og gerði munnlegt samkomulag um að taka við félaginu.

Von er á tilkynningu frá Brighton og Chelsea í dag og gæti Potter stýrt liðinu í fyrsta sinn gegn Fulham um helgina.

Undir stjórn Potters hefur Brighton fylgt eftir góðu gengi síðasta árs þegar félagið lenti í níunda sæti og unnið fjóra af fyrstu sex leikjum tímabilsins.

Hann vakti fyrst athygli fyrir góðan árangur með liði Östersund í Svíþjóð þar sem honum tókst meðal annars að vinna leik gegn Arsenal í Evrópudeildinni.