Í síðustu tveimur viðureignum Íslands og Portúgasl er markatalan Portúgölum í hag í fyrri hálfleik með fjórum mörkum en Ísland hefur unnið báða seinni hálfleikana með samtals ellefu mörkum.

Liðin mætast í þriðja sinn á stuttum tíma í kvöld þegar riðlakeppnin á HM í handbolta hefst í Egyptalandi. Í undirbúningnum mættust liðin tvisvar í undankeppni EM.

Í fyrri leik liðanna í Portúgal voru heimamenn þremur mörkum yfir í hálfleik en unnu að lokum eins marka sigur. Ísland vann því seinni hálfleikinn með einu marki í Portúgal en náði ekki að snúa leiknum sér í hag.

Þegar liðin mættust á Ásvöllum leiddi Portúgal með einu marki í hálfleik en Ísland gekk frá andstæðingum sínum í seinni hálfleik.

Á meðan Portúgal kom boltanum tíu sinnum í mark Íslendinga svöruðu Íslendingar með tuttugu mörkum í seinni hálfleik og unnu átta marka sigur.