Á sama tíma eru Íslendingar eflaust vonsviknir að hafa ekki náð að halda út eftir að hafa leitt leikinn þegar nokkrar mínútur voru til leiksloka.

Þrátt fyrir að Ísland væri án nokkurra lykilleikmanna komust Íslendingar tvisvar yfir í dag og gáfu fá færi á sér gegn Pólverjum sem voru að leika síðasta æfingarleik sinn fyrir EM.

Þjálfarateymið gerði fimm breytingar á byrjunarliðinu frá sigrinum á Færeyjum.

Pólska liðið var mun meira með boltann í upphafi leiks án þess að ógna marki Íslands verulega. Ísland reyndi að beita skyndisóknum og var Albert Guðmundsson oftast arkitektinn í sóknarlotum íslenska liðsins.

Það var einmitt Albert sem kom Íslandi yfir eftir hornspyrnu um miðjan hálfleikinn. Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson fleytti hornspyrnu Guðmundar Þórarinssonar í átt að marki og Albert stýrði boltanum í netið af stuttu færi.

Það reyndist skammvinn gleði því Piotr Zielinski jafnaði metin fyrir Pólland átta mínútum seinna. Pólverjar gerðu þá vel í að opna vörn Íslands og skoraði Zielinski af stuttu færi.

Staðan var jöfn í hálfleik en á upphafsmínútum seinni hálfleiks var komið að Akureyringnum Brynjari Inga Bjarnasyni að skora fyrsta landsliðsmark sitt í sínum þriðja leik.

Þá tók Brynjar niður fyrirgjöf Guðmundar og skoraði með glæsilegu skoti af vítateigslínunni.

Þegar það virtist allt stefna í fyrsta sigur íslenska liðsins á Póllandi jafnaði Karol Swiderski metin á lokamínútum leiksins.

Swiderski gerði vel í að finna pláss í vítateig Íslands og jafna metin af stuttu færi.