„Mér fannst ekkert mikill munur á mér fyrir og eftir EM. Ekki þannig en við höfum verið að spila betur,“ segir Haukur Þrastarson, leikmaður Íslandsmeistara Hauka, en eftir EM hefur hann skorað 32 mörk og gefið 22 stoðsendingar í þremur leikjum. Það gera 10,7 mörk að meðaltali og 7,3 stoðsendingar.

„Maður hefur þurft að stíga aðeins upp því við erum búnir að vera í miklu veseni með meiðsli. En það hefur gengið vel persónulega eftir EM,“ bætir hann við af sinni stóísku ró. Það er ekki æsingurinn í guttanum sem er 18 ára og af mörgum talinn einn efnilegasti leikmaður Evrópu. Hann verður ekki 19 ára fyrr en 14. apríl.

Haukur var í herbergi með Viktori Gísla Hallgrímssyni á EM en þeir voru yngstu leikmenn hópsins. Hann segir að tíminn á EM hafi verið svolítið langur en landsliðið var á sama hóteli allan tímann í rúmar þrjár vikur. „Við sýndum góða frammistöðu en duttum líka niður. Allur sá tími sem ég fékk var dýrmætur og maður reynir að nýta hvert tækifæri sem maður fær til að stimpla sig betur inn. Þetta var dýrmæt reynsla og þegar leið á mótið fékk maður aðeins að spreyta sig meira.

Þetta var orðið svolítið langt á sama stað og á sama hóteli. Sama pastað og einhvern veginn allt það sama en góð upplifun.“

Eftir að Olísdeildin hófst að nýju hafa Íslandsmeistararnir unnið KA og HK en tapað fyrir ÍBV. Þeir sitja sem stendur í sjötta sæti, fjórum stigum frá toppliði Hauka. Spennan á toppnum er mikil og stutt á milli. „Þetta er ólík staða sem við erum í núna miðað við í fyrra. Sérstaklega eftir þessi meiðsli sem við erum búnir að lenda í. Þó að við misstum leikmenn eftir tímabilið í fyrra þá fannst mér það ekki skipta öllu. Mér fannst við vera enn með topplið en meiðslin hafa sett strik í reikninginn.

Við erum búnir að vera að spila á ungum strákum sem eru að taka sín fyrstu skref og þurfa tíma. Það sést á okkar leik að við erum að spila vel inn á milli en dettum síðan niður. Ég vil samt meina að við séum með gott lið og getum gert góða hluti – ekki spurning.“

Haukur samdi við pólska stórliðið Vive Kielce fyrir skemmstu og heldur á vit ævintýranna ásamt kærustu sinni eftir tímabilið. Kielce hefur orðið pólskur meistari síðustu átta ár og vann Meistaradeild Evrópu árið 2016. Í liðinu eru margir af betri handboltamönnum heims eins og Þjóðverjinn Andreas Wolff sem stendur í markinu, bræðurnir Daniel og Alex Dujshebaev sem eru einmitt synir þjálfarans Talant Dujshebaev. Þá samdi annar íslenskur landsliðsmaður, Sigvaldi Björn Guðjónsson, við liðið og munu því tveir Íslendingar leika með þessu stórliði. Þegar rætt er um það við Hauk er ekki laust við að það sé kominn fiðringur í hann og kærustuna. „Hún er spennt eins og ég. Þetta er stórt stökk fyrir okkur, í fyrsta lagi að flytja að heiman og einnig að fara í nýtt land og tala annað tungumál. Það verður margt nýtt fyrir okkur sem verður krefjandi en á sama tíma erum við mjög spennt að takast á við það.

Ég er ekki kominn með íbúð og hef svo sem litlar áhyggjur af því. Það er ekkert stress. Ég stefni á að klára tímabilið hér með stæl og læt Kielce ekkert trufla mig á meðan. Ég er allavega ekkert að spá í því.“