Mattia Binotto, liðs­stjóri For­múlu 1 liðs Ferrari segist pollró­legur þrátt fyrir að orð­rómar, þess efnis að honum gæti verið sagt upp störfum hjá liðinu, hafi orðið há­værari eftir því sem leið á ný­af­staðið tíma­bil í For­múlu 1.

Ferrari byrjaði tíma­bilið vel og var um stund á toppi beggja stiga­keppna mótaraðarinnar en þá fór að síga á ó­gæfu­hliðina hjá liðinu.

Mis­tök eftir mis­tök urðu til þess að Ferrari átti á mikilli hættu á að tapa 2. sæti sínu í stiga­keppnum öku­manna og bíla­smiða undir lok tíma­bils en það reddaðist þó fyrir horn.

Fyrir síðustu keppnis­helgi tíma­bilsins í Abu Dhabi fóru sögu­sagnir þess efnis að Binotto myndi fá sparkið eftir tíma­bil og liðs­stjóri Alfa Romeo, Frederic Vasseur, myndi taka við hans stöðu, há­værari.

Ferrari hefur hins vegar stað­fast­lega neitað þeim orð­rómi.

,,Á­stæðan fyrir því að ég er ró­legur yfir þessu er sú að ég á í opin­skáum og hrein­skilnum sam­skiptum við yfir­menn mína, ekki bara til skemmri tíma litið heldur einnig er varðar lang­tíma fram­tíð Ferrari.

Ef við horfum til baka á tíma­bilið þá getum við séð að jú, við áttum hæðir og lægðir, erum ekki með hraðasta bílinn á brautinni en náðum okkar aðal­tak­marki sem var að mæta aftur til leiks með sam­keppnis­hæft lið á nýrri kyn­slóð For­múlu 1 bíla.

Binotto segir Ferrari hafa átt fram­úr­skarandi ár.

,,Það eru margir hlutir sem við þurfum að vinna í, við höfum sýnt á okkur veik­leika en við leggjum kapp á að leysa þetta allt fyrir næsta tíma­bil."