Um er að ræða síðasta leikinn í þriggja leikja hrinu vináttulandsleikja en liðið laut í lægra haldi fyrir Mexíkó í lok maí og hafði betur, 1-0, gegn Færeyjum á föstudagskvöldið síðastliðið. Þar skoraði Mikael Neville Anderson sitt fyrsta mark fyrir A-landsliðið.

Ísland og Pólland hafa leitt saman hesta sína sex sinnum en fimm sinnum hafa Pólverjar farið með sigur af hólmi og einu sinni var niðurstaðan jafntefli. Það var í vináttuleik á Laugardalsvelli árið 2001. Andri Sigþórsson skoraði mark íslenska liðsins í þeim leik.

Pólland er eitt þrettán ríkja sem karlalandslið Íslands hefur mætt inn á knattspyrnuvellinum án þess að vinna leik. Ísland hefur leikið gegn fimmtíu af 54 aðildarþjóðum UEFA í karlaflokki.

Kolbeinn Sigþórsson og Þórir Jóhann Helgason hafa snúið aftur til félagsliða sinna og taka ekki þátt í þessum leik. Þá er Aron Elís Þrándarson að glíma við meiðsli.

Leikurinn í Poznan er lokaleikur Póllands fyrir lokakeppni Evrópumótsins en þar er pólska liðið í riðli með Spáni, Svíþjóð og Slóvakíu. Fyrsti leikur Póllands er gegn Slóvakíu en sá leikur fer fram í Pétursborg í Rússlandi 14. júní.