Paul Pogba tryggði Manchester United sigur þegar liðið sótti Burnley heim í 17. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Turf Moor í kvöld. Mark Pocba sem kom um miðbik seinni hálfleiks var glæsilegt en hann tók boltann á lofti eftir sendingu frá Marcus Rashford.

Harry Maguire náði að koma boltanum í netið í fyrri hálfleik en markið var dæmt af þar sem talið var að fyrirliðinn hefði ýtt of hressilega á bakið á Erik Pieters áður en hann skallaði boltann á hnitmiðaðan hátt í fjærhornið framhjá Nick Pope. Luke Shaw braut svo groddaralega á Jóhanni Berg Guðmundssyni í fyrri hálfleiknum en gult spjald var látið nægja í því atviki.

Jóhann Berg spilaði allan leikinn á hægri vængnum hjá Burnley en þetta var fyrsti deildarleikurinn sem hann spilaði síðan í lok nóvember síðastliðnum.

Með þessum sigri náði Manchester United þriggja stiga forystu á Liverpool á toppi deildarinnar en þetta er í fyrsta skipti síðan í ágúst árið 2018 sem Rauðu Djöflarnir eru á toppnum. Manchester United og Liverpool mætast svo í toppslag deildarinnar á Anfield á laugardaginn kemur.

Þetta er enn fremur í fyrsta skipti síðan árið 2013 sem Manchester United er á toppnum í janúarmánuðinum og þá voru Manchester United og Liverpool síðast í barátttu um enska meistaratitilinn árið 2009. Í það skiptið hafði Manchester United betur og varð enskur meistari.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans hjá Everton komust aftur á sigurbraut í deildinni.
Fréttablaðið/Getty

Everton bar svo sigurorð af Wolves, 2-1, í leik liðanna á Molineux. Gestirnir komust yfir eftir sex mínútna leik. Eftir laglega sókn lagði Lucas Digne boltann á Alex Iwobi sem renndi boltanum snyrtilega í netið. Þetta var sjötta stoðsendingin hjá Digne í deildinni á yfirstandandi leiktíð og Frakkinn er stoðsendingahæsti leikmaður Everton í vetur.

Það var síðan átta mínútum síðar sem Úlfarnir jöfnuðu metin. Aftur var það franskur vinstri bakvörður sem lagði upp markið. Rayan Ait-Nouri komst þá upp að endamörkum og fann Ruben Neves einan á auðum sjó á fjærstönginni. Portúalski miðvallarleikmaðurinn skilaði boltanum rétta leið.

Þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum tryggði Michael Keane Everton stigin þrjú með föstum skalla. eftir fyrigjöf frá André Gomes. Everton er eftir þennan sigur í fjórða sæti deildarinnar með 32 stig, líkt og Leicester City, sem er sæti ofar þar sem liðið hefur hagstæðari markatölu. Leicester City og Everton eru fjórum stigum frá toppsætinu.

Gylfi Þór Sigurðsson lék fyrstu 76 mínúturnar sem framherji í leikkerfinu 4-4-2 hjá Everton og átti prýðilegan leik. Þetta er staða sem Gylfi Þór er vanur að spila með íslenska landsliðinu og hentar honum afar vel.

Fyrr í kvöld vann Sheffield United fyrsta sigur sinni í deildinni á keppnistímabilinu þegar liðið lagði Newcastle United að velli með einu marki gegn engu. Það var Billy Sharp sem nældi í stigin langþráðu með marki sínu úr vítaspyrnu.

Jóhann Berg Guðmundsson reynir hér skot að marki Manchester United í leiknum í kvöld.
Fréttablaðið/EPA