Franski landsliðsmaðurinn Paul Pogba gagnrýnir stjórnunarhætti innan raða Manchester United og segist ætla að sýna fram á að félagið hafi gert mistök að bjóða honum ekki nýjan samning fyrr.

Þetta kemur fram í nýrri heimildarmynd um Pogba, The Pogmentary sem er væntanleg á streymisveitu Amazon á föstudaginn.

Pogba er á förum frá Manchester United þegar samningur hans rennur út í næsta mánuði. Það er í annað sinn sem Pogba yfirgefur félagið þegar samningur hans rennur sitt skeið.

„Ég tel að Manchester United hafi gert mistök með því að bíða með að bjóða mér nýjan samning. Ég mun sýna það hjá næsta félagi að þetta voru mistök af hálfu Manchester United.“

Samkvæmt heimildum ESPN er Pogba búinn að semja við Juventus en það yrði í annað sinn sem hann gengur til liðs við ítalska stórveldið frítt frá Manchester United.