Paul Pogba, miðjumaður Manchester United, segir að það dreymi alla um að spila einn daginn fyrir Real Madrid og hvað þá þegar landi hans, Zinedine Zidane er knattspyrnustjóri liðsins.

Franski miðjumaðurinn er á þriðja ári sínu hjá Manchester United og hefur einnig leikið með Juventus á ferlinum. 

Fjölmiðlar í Frakklandi spurðu Pogba út í möguleikann á að hann myndi leika einn daginn í treyju Real Madrid og hann virtist hrífast af hugmyndinni.

„Ég hef aldrei farið í felur með það að draumurinn er að spila einn daginn fyrir Real Madrid enda eitt af stærstu félögum heimsins. Zidane er að þjálfa félagið þessa dagana og það yrði draumur að vinna með honum,“ sagði Pogba.  

„Ég er ánægður hjá Manchester í dag en hver veit hvað framtíðin ber í skauti með sér.“