Með því að taka þátt í sumardeild NBA í Bandaríkjunum í sumar verður Jón Axel Guðmundsson þriðji Íslendingurinn til að leika í sumardeildinni á eftir Jóni Arnóri Stefánssyni sem lék með Dallas Mavericks og Tryggva Snæ Hlinasyni sem lék með Toronto Raptors.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem lið í NBA-deildinni sýna Jóni Axel áhuga en í aðdraganda nýliðavalsins árið 2019 þegar Jón Axel lék með Davidson-háskólanum æfði hann með liðum Utah Jazz og Sacramento Kings.Honum var einnig boðið að æfa með New Orleans Pelicans en meiðsli komu í veg fyrir það og sneri Jón Axel því aftur til Davidson og lék síðasta árið með háskólaliðinu.

Ári síðar var Jón Axel ekki valinn í nýliðavali NBA-deildarinnar en samdi við Fraport Skyliners í þýsku deildinni og var í lykilhlutverki strax á fyrsta ári sínu í atvinnumennsku.Jón Axel kemur til með að leika fyrir Phoenix Suns í Las Vegas en liðið lék til úrslita í NBA-deildinni á dögunum. Á sama tíma fær hann tækifæri til að heilla önnur lið.

Hafði um önnur lið að velja

„Það stóð til að ég myndi spila með Phoenix Suns í sumardeildinni í fyrra en það varð ekkert úr því út af Covid. Þeir hafa í raun fylgst með mér síðan ég var í Davidson-háskólanum og sýnt mér mikinn áhuga síðasta árið.Þjálfarar á þeirra vegum sendu mér skilaboð á svona tveggja vikna fresti á meðan tímabilið var í gangi í Þýskalandi. Það auðveldaði mér ákvörðunina að stökkva á þetta með Phoenix Suns hvað þeir sýndu mikinn áhuga.

Ég hafði aðra möguleika en Golden State Warriors og fleiri lið tékkuðu á mér en áhuginn var mestur hjá Phoenix Suns. Svo finnst mér leikstíllinn hjá Phoenix Suns henta mér vel og þjálfari liðsins er heillandi persóna auk þess að kunna sitt fag vel,“ segir Jón Axel um aðdraganda þess að hann tekur þátt í sumardeildinni að þessu sinni.

Jón Axel fær að minnsta kosti fimm leiki til að sýna fram á ágæti sitt fyrir augum forráðamanna allra liða deildarinnar og er frjálst að semja við hvaða lið sem er innan NBA-deildarinnar að henni lokinni.

Sýndi fleiri hliðar í Þýskalandi

„Ég þroskaðist mikið sem leikmaður á síðasta tímabili með Frankfurt Skyliners bæði sem leikmaður og karakter og ég held að það hafi heillað forráðamenn Phoenix Suns.

Eftir að hafa verið nánast einungis að spila sem leikstjórnandi hjá Davidson, þar sem ég var mjög mikið með boltann í höndunum og fá leyfi til að vera svolítið villtur í því liði þá sýndi ég á mér aðrar hliðar hjá Frankfurt Skyliners. Þar þurfti að spila taktískari bolta, sýndi að ég gat líka spilað sem bakvörður og að ég hefði haus í að byrja leikina á bekknum og koma inn á og skila góðri frammistöðu. Þar sýndi ég líka að ég get staðið mig í fullorðinskörfubolta.

Ég fór út til Bandaríkjanna eftir tímabilið í Þýskalandi í maí og hef æft mjög vel síðan þá. Verið að lyfta á morgnana, taka einstaklingsæfingar í körfuboltasalnum og spila „pick up bolta“ þannig að ég mæti vel undirbúinn inn í sumardeildina.Ég hef mikla trú á mér þó að ég geri mér fulla grein fyrir að ég sé ekki að fara að labba inn í NBA-deildina.

Ég veit líka vel að það er verið að leita að öðru en endilega þeim sem skila mestu framlagsstigunum á tölfræðiblaðið.Þannig að ég ætla að fara þarna og spila minn leik. Minn styrkleiki er að koma öðrum inn í spilið auk þess að geta einnig lagt til við stigaskorun,“ segir hann.

Fengið tilboð frá Spáni og Ítalíu

„Ég er búinn að fá tilboð frá efstudeildarliðum á Spáni og Ítalíu en ég ákvað, í samráði við umboðsmanninn minn, að ýta þeim vangaveltum til hliðar og einblína á sumardeildina núna.

Ef ég kemst ekki að inn í NBA þá lýkur sumardeildinni í ágúst og tímabilin í Evrópu byrja í október þannig að ég hef þá tíma til að finna mér lið þar.

Ég flýg til Phoenix í næstu viku og byrja æfingar með liðinu. Við fljúgum svo til Vegas í byrjun ágúst og sumardeildin hefst um miðjan ágúst. Ég er mjög spenntur fyrir þessu og það verður frábært að fá tækifæri til þess að sýna mig og sanna á þessu stóra sviði,“ segir þessi 24 ára gamli leikmaður um framhaldið.