Bannað verður að gefa mótspilurum sínum spaða fimmu (e. high five) og þakka fyrir leikinn þegar PGA-mótaröðin hefst á ný sem bannar kylfingum einnig að notast við þjónustu á borð við Uber.

PGA sendi kylfingum mótaraðarinnar skjal sem taldi 37 blaðsíður af reglum fyrir fyrsta mótið. Forráðamenn mótaraðarinnar stefna að því að keppni hefjist á ný 11. júní.

Það verða engir áhorfendur á fyrstu mótum tímabilsins og verður reynt að fækka starfsmönnum sem koma að slíkum mótum. Gert er ráð fyrir að 400 aðilar, keppendur og starfsmenn komi að einu móti og þurfa allir að fara reglulega í sýnatöku.

Sérstakt leiguflug verður fyrir leikmenn á milli móta og hótel sem verða í einungis fyrir þá sem koma að mótinu.

Þá verður kylfingum bannað að takast í hendur í lok dags til að þakka fyrir leikinn sem og bannað að gefa hvor öðrum spaða fimmu eftir góð högg.

Leikmönnum er heimilt að dvelja heima hjá sér ef þeir eiga íbúð eða hús á svæðinu en þá er stranglega bannað að notast við Uber eða Lyft til að koma á völlinn.