Pétur Pétursson, þjálfari Íslandsmeistara Vals er allt annað en sáttur við Íslenskan Toppfótbolta og segir, í samtali við vefsíðu Fótbolta.net að hann óski eftir því að fulltrúar félagsins komi ekki nálægt verðlaunaafhendingu sem á sér stað á Hlíðarenda á morgun.

Valskonur fá á morgun afhentan Íslandsmeistaratitilinn í síðasta heimaleik liðsins gegn Selfossi í Bestu deildinni. Pétur hafði áður lýst því í samtali við Fótbolta.net að hann væri ósáttur með að verðlaunaafhending morgundagsins skarist á við úrslitaleik FH og Víkings Reykjavíkur í Mjólkurbikarnum.

Ráðgert er að Orri Hlöðversson, formaður ÍTF afhendi ásamt Vöndu Sigurgeirsdóttur, formanni KSÍ, nýjan verðlaunaskjöld til Valskvenna eftir leik Vals og Selfoss en Pétur vill ekki sjá fulltrúa ÍTF á svæðinu.

Ég óska eftir því að ekki einasti maður frá ÍTF komi nálægt verðlaunaafhendingunni á morgun," sagði Pétur Pétursson þjálfari Íslandsmeistara Vals við Fótbolta.net í dag.

Leikur Vals og Selfoss hefst klukkan 14:00 á Origo-vellinum á Hlíðarenda á morgun. Leikur FH og Víkings Reykjavíkur í úrslitaleik Mjólkurbikarsins hefst klukkan 16:00.