„Persónuleikinn hans skín í gegn á gólfinu. Ef skoðaðar eru gamlar myndir frá ÍBV þá er þetta sami karakterinn. Hann er óttalegur gleðipinni og þrífst svolítið á stuðinu í stúkunni og áhorfendum,“ segir Dóra Björk Gunnarsdóttir, móðir Elliða Snæs Viðarssonar, leikmanns íslenska landsliðsins í handbolta.

Eftir að viðtalið var tekið greindist Elliði með jákvætt hraðpróf og beðið var niðurstöðu úr PCR prófi.

Elliði hefur unnið hug og hjörtu með baráttu sinni. Mynda þeir Ýmir Örn Gíslason eitt magnaðasta varnarpar landsins síðan Sverre Jakobsen og Ingimundur Ingimundarson börðu á sóknarmönnum andstæðinganna forðum daga. Hann hefur fengið mikið hrós en hann er aðeins á sínu öðru stórmóti. Það fyrsta fór fram í Egyptalandi í fyrra.

Elliði í baráttu við hinn svissneska Roman Sidorowicz.
Fréttablaðið/Getty

Dóra Björk segir að þau hjónin, ásamt fleirum úr stórfjölskyldunni, hafi farið út til Ungverjalands að fylgjast með fyrstu þremur leikjunum og sjá hann á stóra sviðinu sem hafi verið frábært. „Þetta eru fyrstu alvöru leikirnir sem við gátum fylgt honum eftir þar sem það var ekki í boði í Egyptalandi. Hann er elstur fjögurra systkina sem speglast svolítið í honum finnst mér.“

Fjölskyldulífið hefur alltaf snúist um íþróttir en Dóra var framkvæmdarstjóri ÍBV í sex ár og er mikill áhugi fyrir íþróttum á heimilinu. „Við höfum til að mynda farið á EM í Danmörku 2014 og svo á HM í Þýskalandi 2019 með krakkana.“

Elliði var í íþróttaakademíu ÍBV þar sem hann fékk meiri einstaklingsþjálfun en almennt er hægt að veita á æfingum. Fjölskyldulífið hefur snúist meira og minna um íþróttir og systkini hans eru á kafi í boltanum líka, bendir Dóra á.

Viðar Einarsson, Dóra Björk, Ívar Bessi, Arnór, Sóldís Eva Gylfadóttir og Guðbjörg Silla.
Aðsend mynd.

Evrópumótið í ár er það fyrsta án Guðjóns Vals Sigurðssonar í 20 ár en Guðjón Valur sér um stjórnartaumanna hjá Gummersbach þar sem Elliði spilar.

„Guðjón Valur og Þóra kona hans hafa passað vel upp á hann og hann er í dásamlegum höndum í Þýskalandi. Við höfum náð að fara einu sinni út vegna ástandsins og ég sagði við hann í sumar að ég hefði aldrei skutlað honum út á flugvöll ef ég hefði vitað að við myndum ekki hittast í tíu mánuði.

Hann fór í ágúst og kom heim í júní, rétt rúmlega tvítugur gutti. Það var langur tími. Alveg rosalega,“ viðurkennir hún.

Elliði í Búdapest þar sem hann hefur unnið hug og hjörtu með baráttu sinni. Óvíst er með þátttöku hans í leik dagsins.
Fréttablaðið/Getty

Dóra Björk hefur trú á sigri í dag gegn Svartfjallalandi og að Danir muni vinna Frakka sem myndi þýða að Ísland kæmist í undanúrslit. „Persónulega finnst mér frábært ef við spilum um fimmta sæti. Það er miklu betra en við þorðum að vona.

En þó að maður eigi ekki að vera með óraunhæfar kröfur þá sér maður að strákarnir eru með miklar kröfur á sjálfa sig. Þó þeir séu þreyttir og lúnir þá gleymist það þegar þeir stíga inn á gólfið,“ segir hún.