Bayern München sem er ríkjandi Þýskalands- og bikarmeistari tilkynnti í morgun að félagið hefði gengið frá samningum um að fá króatíska landsliðsmanninn Ivan Perisic á láni frá ítalska liðinu Inter Milan.

Þýska félagið mun njóta krafta Perisic á komandi keppnistímabili og hefur svo forkaupsrétt á króatíska kantmanninum þegar tímabilinu lýkur.

Hann mun þar leika undir stjórn samlanda síns og fyrrverandi liðsfélaga hjá króatíska landsliðinu Niko Kovac sem er að fara inn í sitt annað tímabil við stjórnvölinn hjá Bayern München.

Perisic er fjórði leikmaðurinn sem gengur til liðs við Bayern München í sumar en áður höfðu frönsku varnarmennirnir Lucas Hernández og Benjamin Pavard og framherjinn Jann-Fiete Arp komið til Bæjaraliðsins.