Florentino Perez, forseti Real Madrid, var ekkert að skafa af því þegar hann var spurður að því hvor væri ofar á óskalista Real Madrid, Kylian Mbappe eða Neymar þegar hann sagðist vilja fá þá báða til liðs við Madrídinga.

Perez svaraði spurningum blaðamanna í gær þegar Real tilkynnti það að Zinedine Zidane myndi taka við liðinu á ný, tíu mánuðum eftir að hafa hætt störfum. Santiago Solari hefur því lokið störfum fyrir félagið.

Meðal þess sem spænskir fjölmiðlar spurðu út í voru framtíðaráhorf Real á leikmannamarkaðnum og var Perez spurður út í sögusagnir um að Mbappe og Neymar, tveir dýrustu leikmenn sögunnar, væru á óskalista Real Madrid.

„Ég væri gjarnan til í að fá þá báða til Madrídar. Mbappe er franskur líkt og Zidane og kannski er hægt að nýta það eitthvað.“