Pepsi Max-deildirnar munu hefjast þann 12. og 13. júní. Kvennadeildin byrjar þann 12. og karladeildin þann 13. Þetta kom fram á blaðamannafundi KSÍ þar sem farið var yfir vendingar og ákvarðanir vegna fótboltasumarsins í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveirunnar sem veldur COVID-19.

Þar kom meðal annars fram að Pepsi Max-deild karla verður keyrð á 20 vikum en ekki 22 eins og 2019. Í Pepsi Max-deild kvenna verða vikurnar sautján í stað 20. Það þýðir aukið álag á leikmenn og velli og svigrúm til að fresta leikjum minnkar.

Gert er ráð fyrir takmörkuðum áhorfendafjölda, að minnsta kosti í fyrstu umferðum. Þá kom jafnframt fram að Evrópuleikir eru enn í algjöru uppnámi. Ekki sé vitað hvort að leikir muni fara fram í júlí og ágúst líkt og gert hafi verið ráð fyrir.

Fjöldi leikja sumarið 2020 verður í 1170 í meistaraflokki. 3780 í yngri flokkm og er því samtals um 4950 leiki að ræða.

Pepsi Max-deild kvenna lýkur 11. október en fyrsta umferð deildarinnar verður svona: 

 • föstudagur 12. júní kl. 19:15: Valur - KR
 • laugardagur 13. júní kl. 14:00: Fylkir - Selfoss
 • laugardagur 13. júní kl. 14:00: Breiðablik - FH
 • laugardagur 13. júní kl. 16:00: Þór/KA - Stjarnan
 • laugardagur 13. júní kl. 16:00: ÍBV - Þróttur R.

Fyrsta umferð Pepsi Max-deildar karla verður svona: 

 • laugardaginn 13. júní kl. 20:00: Valur - KR
 • sunnudaginn 14. júní kl. 13:30: HK - FH
 • sunnudaginn 14. júní kl. 13:30: ÍA - KA
 • sunnudaginn 14. júní kl. 13:30: Víkingur R. - Fjölnir
 • sunnudaginn 14. júní kl. 13:30: Breiðablik - Grótta
 • mánudaginn 15. júní kl. 19:15: Stjarnan - Fylkir