Karlalið KR í fótbolta fær í dag til liðs við sig tvo framherja en um er að ræða Sigurð Bjart Hallsson, sem kemur í Vesturbæinn frá Grindavík, og Stefan Alexander Ljubicic, sem gengur til liðs við KR-liðið frá HK.

Sigurður Bjartur skoraði 17 mörk í 21 leik fyrir Grindavík í 1. deild á síðustu leiktíð og bætti tveimur mörkum í þremur bikarleikjum. Hann varð samningslaus og kemur þessi 22 ára gamli framherji þar af leiðandi á frjálsri sölu til KR-inga.

Stef­an Alexander, sem á að baki 17 leiki með yngri landsliðum Íslands, skoraði hins vegar sex mörk í 21 leik í efstu deild fyrir HK og þrjú mörk í þremur bikarleikjum. Þessi 22 árs gamli hávaxni sóknarmaður lék þrjá leiki 15 ára með Kefla­vík í efstu deild áður en hann fór til Bright­on þar sem hann lék með ung­linga- og varaliðum í þrjú ár.

Eftir að Stefán Alexander kom aftur heim úr atvinnumennsku hefur hann leikið með Grindavík og svo HK.

KR-liðið hafnaði í þriðja sæti Íslandsmótsins á nýloknu keppnistímabili og eftir sigur Víkings geng Skagamönnum í bikarúrslitum um helgina er ljóst að Vesturbæjarliðið mun leika í Sambandsdeild Evrópu næsta sumar.

Kjartan Henry Finnbogason, einn sóknarmannna KR-inga, mun hefja næsta tímabil í tveggja leikja banni á Íslandsmótinu og því kærkomið fyrir Rúnar Kristinsson og þjálfarateymi hans að auka breiddina í framlínu liðsins.