Manuel Pellegrini, nýráðinn knattspyrnustjóri West Ham United, komst í hann krappan þegar hann var staddur í fríi í Santiago, höfuðborg heimalands hans Síle.

Pellegrini var á leið á veitingastað í Santiago með eiginkonu sinni og tveimur vinum þeirra þegar glæpagengi vatt sér upp að þeim, ógnaði þeim með byssum og heimtaði þau verðmæti sem þau voru með á sér. 

Glæpagengið náði veski af eiginkonu Pellegrini áður en ræningjarnir flúðu af vettvangi, en Pellegrini og föruneyti hans sluppu hins vegar öll ómeidd úr ráninu. 

Pellegrini var fyrr í sumar ráðinn knattspyrnustjóri West Ham United, en hann stýrði áður Manchester City og gerði liðið að Englandsmeisturum árið 2014.