Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Pele er kominn af gjörgæslu eftir að hafa gengist undir aðgerð þar sem æxli var fjarlægt úr ristli hans.

Pele greindi frá þessu á Instagram-síðu sinni í nótt í færslu sem sjá má hér fyrir neðan. Hann lofar því að hann sé að ná fullum bata á næstunni.

Pele er af mörgum talinn einn besti knattspyrnumaður allra tíma en hann leiddi brasilíska liðið til sigurs á HM 1958, aðeins sautján ára gamall. Hann er eini karlkyns leikmaðurinn í sögunni sem hefur unnið HM þrisvar.

Þá var hann lengi vel markahæsti leikmaðurinn í karlaknattspyrnu en Cristiano Ronaldo tók fram úr honum á dögunum. Þá er Neymar að nálgast markamet Pele með brasilíska landsliðinu þar sem Pele skoraði 77 mörk í 92 leikjum.