Pavel Ermolinskij mun ekki leika með Íslandsmeisturum Vals í körfubolta á komandi tímabili. Þetta tilkynnti Pavel stuðningsmönnum Vals með færslu í Facebook hópi stuðningsmanna.

Pavel lék lykilhlutverk í liðið Vals á síðasta tímabili þegar að félagið vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í karlakörfunni í 39 ár. Hann hefur einnig verið meðal bestu leikmanna Íslands undanfarna áratugi.

,,Ég verð ekki með liðinu á komandi tímabili," sagði í tilkynningu Pavels til stuðningsmanna. ,,Ég veit ekki hvað tekur við hjá mér. Valur tók mig inn fyrir þremur árum og veitti mér tækifæri til þess að takast á við verðugt og krefjandi verkefni. Þetta verkefni var mér hvatningin sem ég þurfti á þeim tíma. Ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa tekið þátt í árangrinum sem náðist og þessari einlægu gleði sem ríkti í kringum körfuboltaliðið í fyrra.

,,Mín reynsla er að vegurinn að góðum árangri er miklu styttri ef þú starfar í góðu umhverfi. Vals samfélagið í heild sinni, allt frá stjórn niður í sjálfboðaliða og stuðningsfólk, getur verið stolt af umhverfinu sem það hefur skapað. Sjáumst í Fjósinu! Kv. P15"

Reiknuðu ekki með Pavel

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Valsmanna var gestur í Valsara-hlaðvarpsþættinum Vængjum þöndum í júnímánuði þar sem hann var spurður út í næsta tímabil og framtíð Pavels:

,,Ef ég hef lært eitthvað af öllum mínum árum í þessu þá er það að ekki búast við neinum svörum frá Pavel Ermolinskij á þessum árstíma. Við sjáum bara til."

,,Ef hann vill spila þá er hann meira en velkominn. Við ætlum ekki að gera ráð fyrir honum en plássið hans verður alltaf þarna. Í öllum mínum liðum verður alltaf pláss fyrir hann."