Körfuboltadeild Vals hefur gert samning við Pavel Ermolinskij um að leika með Val næstu tvö tímabil. Samingur þessa efnis var undirritaður nú í hádeginu í Origohöllinni. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Valsmanna.

Pavel hefur spilað með KR síðastliðin sex tímabil en þar áður lék hann sem atvinnumaður í Svíþjóð tvö tímabil, 5 tímabil á Spáni og eitt í Frakklandi.

Uppeldisfélag Pavels er Skallagrímur. Pavel hefur leikið yfir 70 leiki með A landsliði Íslands auk þess sem hann spilaði með yngri landsliðum. Pavel hefur unnið til flestra einstaklingsverðlauna og liðsverðlauna sem eru í boði í körfuboltanum á Íslandi.

Hann var leikmaður ársins árin 2011 og 2015 og í liði ársins fjórum sinnum á síðustu átta tímabilum í deildinni.