Patrick Pedersen skoraði sína þriðju þrennu á Íslandsmóti fyrir Val þegar hann skoraði þrjú marka Valsliðsins í 4-0 sigri gegn HK í þriðju umferð Íslandsmótsins í gærkvöldi. Pedersen sem spilaði fyrst fyrir Val árið 2013 hefur reynst Hlíðarendaliðinu mikill happafengur en hann hefur nú skorað 58 mörk í 86 deildarleikjum fyrir liðið.

Markahlutfallið hjá Pedersen síðustu þrjú sumrin er sérstaklega eftirtektarvert en á þeim tíma hefur hann skorað 28 mörk í þeim 35 deildarleikjum sem hann hefur spilað í Valsbúningnum. Það þýðir að danski framherjinn hefur skorað 0,8 mörk í leik í síðustu þremur keppnistímabilum með Val.

Mörkin þrjú gerðu Pedersen að markahæsta leikmanni deildarinnar ásamt skoska framherjanum Steven Lennon sem getur náð forystu á toppi þess lista á nýjan leik með því að vera á skotskónum þegar FH sækir Víking heim í Fossvoginn í kvöld.

Valur hefur sex stig eftir þrjá leiki líkt og Stjarnan, FH, KR og Breiðablik sem spilar við Fjölni á Kópavogsvellinum í kvöld. Þá munu liðin tvö sem eiga eftir að koma sér á blað á Íslandsmótinu á yfirstandandi leiktíð, Fylkir og Grótta leiða saman hesta sína í Árbænum.