Patrekur Jóhannesson var tekinn inn í goðsagnahöll handboltans hjá KA fyrir leik liðsins gegn Fram á sunnudaginn. Hann er sá fyrsti sem er tekinn inn í goðsagnahöllina hjá KA.

Patrekur kom til KA frá Stjörnunni 1994 og lék með Akureyrarliðinu í tvö ár. Á þeim tíma vann KA fyrstu stóru titlana í sögu félagsins.

KA varð bikarmeistari 1995 eftir dramatískan sigur á Val í úrslitaleik. Patrekur skoraði ellefu mörk í bikarúrslitaleiknum. KA og Valur mættust einnig í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn þar sem Valsmenn höfðu betur, 3-2.

Tímabilið 1995-96 varð KA aftur bikarmeistari, eftir sigur á Víkingi í úrslitaleik, og varð auk þess deildarmeistari. Líkt og árið á undan mættust KA og Valur í úrslitum Íslandsmótsins. Valsmenn unnu einvígið 3-1 og urðu þar með Íslandsmeistarar fjórða árið í röð.

Patrekur gekk í raðir TUSEM Essen sumarið 1996 og lék í atvinnumennsku næstu níu árin.

Hann er í dag þjálfari Selfoss og austurríska landsliðsins. Í sumar tekur Patrekur við Danmerkurmeisturum Skjern.