Skjern sem er ríkjandi Danmerkurmeistari í handbolta karla en situr nú í áttunda sæti dönsku efstu deildarinnar með 14 stig eftir jafn margar umferðir er í þjálfaraleit þessa stundina. 

Ole Nørgaard og Henrik Kronborg sem halda um stjórnartaumana hjá liðinu hafa gefið það út að þeir muni láta af störfum með liðið í sumar og er leit af eftirmönnum þeirra hafin. 

Danski fjölmiðillinn TV2Sport segir að forráðamenn félagsins hafi sett sig í samband við Patrek Jóhannesson sem er í starfi bæði hjá Selfossi við að þjálfa karlalið félagsins og þjálfar austurríska karlalandsliðsið með það fyrir augum að fá hann til þess að taka við danska liðinu.

Tandri Már Konráðsson hefur leikið með Skjern undanfarin ár og varð meistari með liðinu síðasta vor. Björgvin Páll Gústavsson hefur leikið með danska liðinu á yfirstandandi leiktíð eftir að hafa gengið til liðs við félagið frá Haukum síðasta sumar.