Spretthlauparinn Patrekur Andrés Axelsson sem hleypur fyrir hönd Ármanns bætti í gær eigið Íslandsmet í 400m hlaupi í flokki T11 (blindir) á opna franska meistaramótinu.

Patrekur kom í mark á tímanum 58,28, 1,28 sekúndu frá því að ná lágmarkinu fyrir HM í Dubai í nóvembermánuði sem er 57,00 sek.

Í gær reyndi Patrekur einnig við lágmark í 100m hlaupi og kom í mark á tímanum 12,43 sek. en lágmarkið fyrir HM er 12,10 sek.

Mótið í Frakklandi er síðasta mótið í Grand Prix mótaröð IPC fyrir HM en lágmarkatímanum fyrir HM í Dubai lykur þann 30. september næstkomandi svo enn er möguleiki fyrir Patrek að ná lágmörkum inn á HM.

Fyrra met Patreks setti hann fyrir um ári síðan þegar hann kom í mark á 1:02,80 og var þetta því bæting upp á rúmar fjórar sekúndur.