Pape Mamadou Faye, sem lengi hefur leikið fótbolta hér á landi, kallar Björgin Stefánsson, sóknarmann KR í Pepsi-deild karla í fótbolta, fáviti. Tilefnið eru ummæli sem Björgvin lét falla í lýsingu sinni á leik Hauka og Þróttar í Inkasso-deild karla, en ummælin hafa vakið harða gagnrýni og fordæmingu.

„Þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum,“ sagði Björgvin.

Fréttablaðið greindi frá ummælum Björgvins í gær, en hann hefur síðan beðist afsökunar á Twitter-síðu sinni. Björgvin, sem áður lék með fótboltaliði Hauka, lýsti leik Hauka gegn Þrótti í gær. Eftir atvik sem upp kom á milli Haukamannsins Arnars Aðalgeirssonar og Þróttarans Archange Nukumu lét Björgvin ummælin umdeildu falla. „Þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum,“ sagði Björgvin.

Upptaka af ummælum Björgvins rataði á samfélagsmiðla, og uppskar Björgvin fordæmingu mikla fyrir þau. Hann birti í gærkvöld afsökunarbeiðni, þar sem hann segist hafa orðið sekur um „hrapalegt dómgreindarleysi“.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, virðist gera ummæli Björgvins að umtalsefni í færslu á Twitter-síðu sinni. „Við viljum ekki sjá fordóma í fótboltanum frekar en í samfélaginu öllu. Fótbolti gengur út á samvinnu, liðsheild, gleði og virðingu. Við berjumst gegn fordómum með fræðslu og kærleik,“ skrifar formaðurinn. Þá greindi Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, frá því í samtali við Fréttablaðið að verið væri að afla gagna um ummæli Björgvins og gæti hann átt yfir höfði sér leikbann sökum þeirra.

Þessu til viðbótar lagði Pape Mamadou Faye orð í belg á Facebook-síðu sinni í dag. „Þetta er það sem ég er alltaf segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum. Þetta sagði leikmaður KR í beinni útsendingu í gærkvöldi,“ skrifar Pape á Facebook. Hann segir að það komi honum ekki á óvart að slík ummæli yrði látin falla hér á landi. „[E]n ð þetta skuli koma frá þessum fávita sem ég hafði lengi haldi að væri nettur gæji og allt það er það sem kemur mér mest á óvart í þessu. Svona er ekki boðlegt árið 2019, manni hefur fundist eins og hlutirnir væru að lagast en svo kemur eitthvað svona og setur strik í reikninginn,“ skrifar hann.