Pálmi Rafn Pálmason tryggði KR 1-0 sigur þegar liðið sótti Val heim í 20. umferð Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld.

Þar af leiðandi hafa KR-ingar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í 27. skipti í sögu félagsins en Vesturbæjarliðið hefur 46 stig á toppi deildarinnar og er með níu stiga forskot á Breiðablik sem er í öðru sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir.

Pálmi Rafn skoraði sigurmarkið strax á fjórðu mínútu leiksins en hann kláraði færið snyrtilega eftir fasta fyrirgjöf frá danska bakverðinum Kennie Chopart.

Þetta var sjöunda markið sem Pálmi Rafn skorar fyrir KR í deildinni í sumar. KR varð síðast Íslandsmeistari árið 2013 en þá var Rúnar Kristinsson einnig við stjórnvölinn og KR-liðið tryggði titilinn þá sömuleiðis á Valsvellinum.

Þetta er sjötti titilinn sem KR vinnur undir stjórn Rúnars en þessi Íslandsmeistaratitill var sá þriðji með hann í brúnni og bikarmeistaratitlarnir eru einnig þrír.

Valur er í sjöunda sæti deildarinnar með 25 stig og á enn tölfræðilega möguleika á að falla og er jafn langt frá því að tryggja sér sæti í Evrópudeildinni á næsta tímabili.

Breiðablik og Stjarnan skildu jöfn 1-1 í leik liðanna á Kópavogsvellinum. Jósef Kristinn Jósefsson kom þar Stjörnunni yfir með skallamarki eftir sendingu frá Sölva Snæ Guðbjargarsyni.

Höskuldur Gunnlaugsson jafnaði hins vegar metin fyrir Breiðablik. Blikar hafa 37 stig í öðru sæti en liðið tryggði sér með þessu stigi sæti í Evrópudeildinni á næstu leiktið. FH er í þriðja sæti með 31 stig og Stjarnan kemur svo í fjórða sætinu með 29 stig.

Pablo Punyed átti góðan leik fyrir KR þegar liðið lagði Val að velli í kvöld.
Fréttablaðið/Ernir