Gunnar Nelson mætir Bryan Barberena í bardagabúrinu á vegum UFC í O2-höllinni í London á laugardaginn kemur. Í aðdraganda bardagans er Gunnari fylgt eftir í YouTube þáttaröðinni The Grind.
Gunnar er nú mættur til London, byrjaður að létta sig fyrir bardagann og halda flæðinu gangandi. Að auki hefur hann ýmsum fjölmiðlaskyldum að gegna sem bardagamaður UFC og sat meðal annars fyrir svörum á blaðamannafundi í gær.
Í nýjasta þætti The Grind stígur Gunnar á vigtina á hótelinu sem hann dvelur á ásamt sínu teymi og vó hann þá tæp 82 kíló.
„Pabbi er svo þægilegur núna, hann er búinn að vera kúka í sig úr stressi,“ sagði Gunnar við myndavélina eftir að hafa stigið á vigtina og átti þar við stress föður síns yfir því hversu þungur Gunnar væri fyrir bardagann og niðurskurðinn fyrir UFC vigtunina á morgun.
Gunnar endaði gærdaginn á því að taka létta æfingu í aðstöðu London Grapple og þar tjáði Matthew Miller, glímuþjálfarinn hans, sig um standið á Gunnari.
„Gunnar er einn mesti fagmaður sem þú finnur í heimi blandaðra bardagalista. Með þennan trausta grunn sem hann byggir á kemur hann alltaf með nýjar hugmyndir til þess að þróa sig út frá þessum grunni fyrir hvern einasta bardaga. Hann verður því alltaf sífellt sterkari.“
Dvöl Gunnars í Dublin í aðdraganda þessa bardaga, þar sem að hann æfði meðal annars með Bellator meistaranum Yaroslav Amosov hafi veitt honum nýjan innblástur og hugmyndir.
„Við náum að vinna þær áfram og meðtaka nýjar tæknilegar útfærslur sem við getum notað í bardaganum.“
Annan þátt The Grind má sjá hér fyrir neðan: