Mesut Özil sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem hann lýsti yfir vonbrigðum sínum með ákvörðun Arsenal að velja hann ekki í leikmannahóp Arsenal í ensku úrvalsdeildinni.

Özil er hvorki í leikmannahóp Arsenal í ensku úrvalsdeildinni né Evrópudeildinni og kemur því ekkert við sögu næstu tíu vikurnar að hið minnsta.

Þjóðverjinn sem er á áttunda tímabili sínu hjá enska félaginu er einn launahæsti leikmaður Arsenal og fékk bónusgreiðslu upp á átta milljónir punda fyrir hollustu sína við Arsenal í september.

Í yfirlýsingunni sem lesa má hér fyrir neðan lýsir Özil því yfir hvernig samband hans og Arteta hafi byrjað vel en undanfarið hafi honum veri gert ljóst að krafta hans yrði ekki óskað.

Hann ætli sér þrátt fyrir það að gefa sig allan á æfingum Arsenal það sem eftir lifir samningsins.