Mesut Özil mætir ekki með Istanbul Basaksehir á Kópavogsvöll til að mæta Breiðabliki í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar á fimmtudag.

Fyrri leikur liðanna fer fram á Kópavogsvelli á fimmtudag og sá síðari í Tyrklandi viku síðar.

Özil er kominn stutt á veg í undirbúningi sínum fyrir komandi leiktíð, auk þess að vera að glíma við smávægileg meiðsli. Hann er því ekki í hópi Basaksehir sem kemur til Íslands.

Özil er hvað frægastur fyrir tíma sinn hjá Arsenal og Real Madrid. Þá vann hann heimsmeistaramótið árið 2014 með Þjóðverjum.

Víkingur Reykjavík leikur einnig í þriðju umferðinni. Liðið mætir Lech Poznan. Fyrri leikurinn í því einvígi fer einnig fram á Íslandi.