Alfreð Finnbogason fór úr axlarlið í leik Íslands og Tyrklands í undankeppni EM 2020 í Istanbúl í kvöld. Það er visir.is sem greinir frá þessu.

Svo virtist sem Caglar Soyuncu hefði lent ofan á hendi Alfreðs en visir.is fékk það staðfest að Alfreð hafi lent illa í viðskiptum sínum við tyrkneska miðvörðinn og farið úr lið.

Alfreð er tiltörulega nýkominn aftur inn á völlinn eftir að hafa glímt við kálfameiðsli í upphafi leiktíðarinnar. Nú tekur við endurhæfing vegna þessara meiðsla.

Hann mun því ekki leika með íslenska liðinu í lokaumferð undankeppninnar gegn Moldóvu á sunnudaginn kemur. Sá leikur skipti engu máli fyrir þróun mála hvað það varðar hvaða lið fara beint í lokakeppni mótsins.

Tyrkland og Frakkland hafa tryggt sér farseðilinn þangað en Ísland mun fara í umspil um laust sæti þar í mars og vonandi að Alfreð verði heill heilsu þegar þar að kemur.