Stjórnvöld nokkurra ríkja, þar með talið Bandaríkjanna og Bretlands, hafa greint frá ákvörðun sinni um að senda ekki embættismenn á leikana. Um er að ræða táknræn mótmæli ríkjanna við bága stöðu mannréttinda í Kína. Þá sérstaklega í tengslum við að Kínverjar hafa verið sakaðir um mannréttindabrot gegn Úígúrum í sjálfsstjórnarhéraðinu Xinjiang.
Minnst milljón Úígúrum hefur verið haldið í sérstökum fangabúðum og ásakanir um kerfisbundna þrælkunarvinnu, alvarleg kynferðisbrot og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir hafa verið viðraðar. Stjórnvöld í Kína neita ásökunum sem hafa borist um mannréttindabrot í Xinjiang, og Wang Wenbin, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, segir að um pólitíska sýndarmennsku sé að ræða hjá ríkjunum sem hafa ákveðið að sniðganga leikana.
Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um það hvort íslenskir embættismenn verði viðstaddir leikana, segir talsmaður utanríkisráðuneytisins að þátttaka íslenskra fulltrúa yrði miklum vandkvæðum bundin. „Fyrir liggur að þátttaka fulltrúa íslenskra stjórnvalda á Ólympíuleikunum í Peking yrði miklum vandkvæðum bundin og er afar ólíkleg sökum strangra sóttvarnarkrafna og mikils umstangs og tilkostnaðar sem fælist í slíku ferðalagi“.
Hafa gagnrýnt kínversk stjórnvöld
Ráðuneytið segir íslensk stjórnvöld hafa ítrekað gagnrýnt framgöngu kínverskra stjórnvalda í Xingjiang-héraði á vettvangi alþjóðastofnana og í tvíhliða samskiptum við Kína.
„Íslensk stjórnvöld fylgjast því ákaflega vel með þeirri umræðu sem á sér stað um sniðgöngu á grundvelli framgöngu Kína í mannréttindamálum. Nokkur lönd hafa nú þegar ákveðið að senda ekki fulltrúa stjórnvalda á leikana af þessum sökum. Íslensk stjórnvöld eiga í nánu samstarfi og samráði við sín helstu samstarfsríki um þetta málefni, eins og jafnan um alþjóðleg mannréttindamál.“
Stjórnvöld í Kína höfðu áður varað Bandaríkin við að grípa til þess ráðs að senda ekki embættismenn á leikana, það myndi koma í bakið á ríkinu. Keppendur frá Bandaríkjunum munu hins vegar taka þátt á leikunum, samkvæmt þeim upplýsingum sem hingað til hafa borist.
Í svari utanríkisráðuneytisins segir jafnframt að það sé ósk íslenskra stjórnvalda að leikarnir geti farið fram í nafni þess sem sameini okkur öll og með þátttöku íþróttafólks hvaðanæva að úr heiminum.
„Ólympíuleikarnir eru tákn um frið og samvinnu, þar sem fólk frá ýmsum þjóðum fagnar því sem er okkur öllum sameiginlegt óháð pólitískum deilum og þrætum. Þeir hafa það hlutverk að sýna fram á það besta sem einstaklingar og hópar einstaklinga hafa fram að færa.“