Stjórn­völd nokkurra ríkja, þar með talið Banda­ríkjanna og Bret­lands, hafa greint frá á­kvörðun sinni um að senda ekki em­bættis­menn á leikana. Um er að ræða tákn­ræn mót­mæli ríkjanna við bága stöðu mann­réttinda í Kína. Þá sér­stak­lega í tengslum við að Kín­verjar hafa verið sakaðir um mann­réttinda­brot gegn Úígúrum í sjálfs­stjórnar­héraðinu Xinjiang.

Minnst milljón Úígúrum hefur verið haldið í sér­stökum fanga­búðum og á­sakanir um kerfis­bundna þrælkunar­vinnu, al­var­leg kyn­ferðis­brot og þvingaðar ó­frjó­semis­að­gerðir hafa verið viðraðar. Stjórn­völd í Kína neita á­sökunum sem hafa borist um mann­réttinda­brot í Xinjiang, og Wang Wen­bin, tals­maður utan­ríkis­ráðu­neytis Kína, segir að um pólitíska sýndar­mennsku sé að ræða hjá ríkjunum sem hafa á­kveðið að snið­ganga leikana.

Í svari við fyrir­spurn Frétta­blaðsins um það hvort ís­lenskir em­bættis­menn verði við­staddir leikana, segir tals­maður utan­ríkis­ráðu­neytisins að þátt­taka ís­lenskra full­trúa yrði miklum vand­kvæðum bundin. „Fyrir liggur að þátt­taka full­trúa ís­lenskra stjórn­valda á Ólympíu­leikunum í Peking yrði miklum vand­kvæðum bundin og er afar ó­lík­leg sökum strangra sótt­varnar­krafna og mikils um­stangs og til­kostnaðar sem fælist í slíku ferða­lagi“.

Hafa gagn­rýnt kín­versk stjórn­völd

Ráðu­neytið segir ís­lensk stjórn­völd hafa í­trekað gagn­rýnt fram­göngu kín­verskra stjórn­valda í Xingjiang-héraði á vett­vangi al­þjóða­stofnana og í tví­hliða sam­skiptum við Kína.

„Ís­lensk stjórn­völd fylgjast því á­kaf­lega vel með þeirri um­ræðu sem á sér stað um snið­göngu á grund­velli fram­göngu Kína í mann­réttinda­málum. Nokkur lönd hafa nú þegar á­kveðið að senda ekki full­trúa stjórn­valda á leikana af þessum sökum. Ís­lensk stjórn­völd eiga í nánu sam­starfi og sam­ráði við sín helstu sam­starfs­ríki um þetta mál­efni, eins og jafnan um al­þjóð­leg mann­réttinda­mál.“

Stjórn­völd í Kína höfðu áður varað Banda­ríkin við að grípa til þess ráðs að senda ekki em­bættis­menn á leikana, það myndi koma í bakið á ríkinu. Kepp­endur frá Banda­ríkjunum munu hins vegar taka þátt á leikunum, sam­kvæmt þeim upp­lýsingum sem hingað til hafa borist.

Í svari utan­ríkis­ráðu­neytisins segir jafn­framt að það sé ósk ís­lenskra stjórn­valda að leikarnir geti farið fram í nafni þess sem sam­eini okkur öll og með þátt­töku í­þrótta­fólks hvaða­næva að úr heiminum.

„Ólympíu­leikarnir eru tákn um frið og sam­vinnu, þar sem fólk frá ýmsum þjóðum fagnar því sem er okkur öllum sam­eigin­legt óháð pólitískum deilum og þrætum. Þeir hafa það hlut­verk að sýna fram á það besta sem ein­staklingar og hópar ein­stak­linga hafa fram að færa.“