Stjórn Formúlu 1 fundar í dag þar sem ákvörðun verður tekin um hvort að kappaksturinn í Sjanghaí fari fram í apríl næstkomandi. Búist er við því að keppninni verði frestað eða aflýst.

Borgaryfirvöld í Sjanghaí hafa lagt til að öllum íþróttaviðburðum verði frestað á meðan kórónaveiran gengur yfir. Veiran á rætur sínar að rekja til Wuhan-héraðs í Kína og hafa 24.300 manns greinst með veiruna og tæplega fimm hundruð látist, flest í Kína.

Búið er að aflýsa HM í frjálsum innanhúss sem átti að fara fram í Nanjing og Formúlu E kappakstri en báðir þessir viðburðir áttu að fara fram í næsta mánuði. Þá hefur Ólympíunefndin lýst yfir áhyggjum að veiran hafi áhrif á Ólympíuleikana í Tókýó.

Áætlað var að fjórða keppni ársins færi fram í Sjanghaí þar sem keppt hefur verið á hverju ári síðan 2004 en ákvörðun verður tekin um framhaldið á næstu dögum.