Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ staðfestir í samtali við Fréttablaðið að verið sé að skoða aðra velli í tengslum við úrslitaleik Lettlands og Íslands í Eystrasaltsbikarnum á morgun. Íslenska landsliðið gat ekki klárað æfingu á leikvanginum í Daugava í Lettlandi fyrr í dag vegna óviðunandi ástands á vellinum sjálfum.
Knattspyrnusérfræðingurinn Hjörvar Hafliðason, setti fram færslu á samfélagsmiðlinum Twitter fyrir skömmu þar sem hann sagði íslenska landsliðið neita að spila úrslitaleikinn við Letta á vellinum í Daugava þar sem hann væri ekki leikhæfur.
Íslenska landsliðið neitar að spila úrslitaleikinn við Letta í Daugava. Telja völlinn ekki leikhæfan. Lettneska sambandið er núna að sýna íslenska landsliðinu völl Skonto Riga í von um að það verði spilað a morgun.
— Hjörvar Hafliðason (@hjorvarhaflida) November 18, 2022
Lettar spiluðu við Eista í Daugava á miðvikudag og ekkert vesen.
Ómar segir ekki búið að slá það af borðinu að spilað verði á umræddum velli en að á þessari stundu sé verið að skoða aðra kosti í stöðunni. Ekkert væri hins vegar ákveðið í þessum efnum.
„Við erum að skoða möguleikana sem eru í boði, hvort það sé eitthvað annað í boði. Við æfðum í morgun og kláruðum ekki æfingu vegna þess að vallaraðstæður voru erfiðar."
Úrslitaleikur Lettlands og Íslands í Eystrasaltsbikarnum hefst klukkan 14:00 á morgun, hvar hann fer fram á eftir að koma endanlega í ljós.