Arnar hefur ekki áhyggjur af Covid-19 smiti sem hefur komið upp í tengslum við leikmann landsliðsins, Brynjólf Darra Willumsson.

,,Þetta verður aldrei vandamál, við leysum það bara. Við höfum enga stjórn á þessu (að leikmaður smitist), erum bara þakklátir fyrir alla þá hjálp og ráðgjöf sem við höfum fengið frá Íslandi það eru sérfræðingar í þessum málum sem eru með okkur í liði í þessu. Við förum eftir öllum þeim reglum sem gilda. Þetta er bara svona, er út um allt en við tökum bara á því. Ég býst ekki við því að smitin verði fleiri. Þetta lýtur ágætlega út," sagði Arnar Þór á blaðamannafundi í dag.

Þrjú efstu nöfn á blaði eru Íslendingar

Aðspurður um það hvernig ráðningarferlið í starf aðstoðarlandsliðsþjálfara gangi segist Arnar vera með fimm nöfn á blaði, fyrstu þrír þjálfararnir á því blaði séu Íslendingar og þeir eru allir í starfi eins og er. ,,Fyrstu þrír á blaði hjá mér eru íslendingar. Mér finnst það vera best fyrir liðið, KSÍ sem og íslenskan fótbolta að vera með íslenskan aðstoðarþjálfara. Helst aðila sem er búsettur á Íslandi."

Arnar vonast til að gengið verði frá ráðningu á aðstoðarlandsliðsþjálfara fljótlega eftir yfirstandandi landsliðsverkefni. ,,Strax eftir leikina förum við í það að reyna klára þau mál." Hann segir að starfið muni enn þá vera fullt starf innan KSÍ. ,,Aðstoðarþjálfarastarfið er fullt starf. Það er mjög eðililegt að það sé þannig og því verður ekki breytt núna. Það er ómögulegt að vera í starfi fyrir utan KSÍ og ætla sér að vera aðstoðarþjálfari núna.

Arnar Þór leitar að nýjum aðstoðarmanni eftir brotthvarf Eiðs Smára
KSÍ

Arnar segist vera búinn að ræða við alla þá þjálfara sem séu efstir á blaði hjá honum. ,,Ég er einnig búinn að leita mér ráða hjá reyndum þjálfurum og kollegum mínum í útlöndum. Þessir aðilar sem ég hef rætt mest við vita af áhuga mínum. Ég veit hvernig þjálfara ég er að leita að en þetta snýst bara um að klára þetta ráðningarferli og gera það almennilega."

En hvernig þjálfara er Arnar að leita að? ,,Ég vil vinna með fólki sem ég get treyst. Þarf mann sem þekkir ekki bara íslenska knattspyrnu, heldur þekkir landsliðsumhverfið."

Hann segir komandi leiki gegn Úganda og Suður-Kóreu kjörið tækifæri til að prófa nýja hluti ,,en grunngildin og hlutverkin verða þau sömu alveg sama hvaða leikkerfi verður spilað."

Veit hvað hann fær frá Jóni Degi

Það vakti athygli margra þegar landsliðshópurinn var tilkynntur, að Jón Daði Böðvarsson, sem hefur lítið sem ekkert spilað fyrir félagslið sitt Millwall, var valinn í hópinn.

,,Það góða við hann Jón Daða er að hann er ótrúlegur atvinnumaður. Við höfðum samband við hans félag og þjálfarateymi til að fá mynd af stöðunni. Hann er mikill atvinnumaður og hefur æft mjög vel alla þessa mánuði sem hann hefur verið úti í kuldanum."

Jón Daði Böðvarsson í leik með íslenska landsliðinu

Ísland mætir Úganda í Tyrklandi á miðvikudaginn næstkomandi. Liðið á síðan leik gegn Suður-Kóreu á laugardaginn.