Eftir að hafa farið rólega af stað í markaskorun í fyrstu tveimur leikjum Íslandsmótsins í knattspyrnu karla brast markastíflan hjá Óttari Magnúsi Karlssyni í gærkvöldi. Óttar Magnús skoraði þá þrjú marka Víkings í 4-1 sigri gegn FH en þessi frábæri framherji hefur þar af leiðandi skorað fjögur mörk í deildinni og er markakhæsti leikmaður deildairnnar ásamt kollega sínum Steven Lennon hjá FH.

Óttar Magnús þótti skara fram úr þegar hann lék með yngri flokkum Víkings og honum var spáð glæstri framtíð. Hann steig fyrstu skref sín með meistaraflokk félagsins árið 2013. Það sama ár var sóknarmaðurinn seldur til Ajax en eftir að hafa verið lánaður til Sparta Rotterdam sneri aftur heim og lék með Víking árið 2016. Það sumar var Óttar Magnús valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar.

Sú frammistaðar varð til þess að Molde í Noregi falaðist eftir kröftum hans og þaðan fór hann síðan svo til Trelleborg og Mjallby í Svíþjóð. Um mitt síðasta sumar snéri Óttar Magnús svo aftur heimaslóðir og kórónaði gott keppnistímabil sitt með því að skoara sigurmark Víkingsliðsins í sigri gegn FH í úrslitaleik bikarkeppninnar.

Tölfræði hans með Fossvogsliðsinu er býsna góð en Óttar Magnús hefur skorað 20 mörk í þeim 39 leikjum sem hann hefur spilað fyrir uppeldisfélagið. Þá hefur hann leikið með öllum landsliðum Íslands og skorað 11 mörk í 47 landsleikjum sínum.