Rut Arnfjörð Jónsdóttir var í lykilhlutverki þegar KA/Þór braut blað í sögunni með því að vinna meistarakeppni HSÍ í fyrsta sinn fyrir ári. Það reyndist aðeins upphafið á mögnuðu ári þar sem Akureyringar unnu alla þá titla sem voru í boði. KA/Þór varð deildarmeistari síðastliðið vor og fylgdi því eftir með því að landa Íslandsmeistaratitlinum nokkrum vikum síðar. Tímabilið var svo fullkomnað á dögunum þegar Akureyringar unnu bikarmeistaratitilinn, en fram að þessu hafði félagið aldrei unnið titil í efstu deild eða í bikar.

Með því urðu Akureyringar annað liðið í sögunni utan höfuðborgarsvæðisins til að vinna Íslands- og bikarmeistaratitilinn í kvennaflokki sama ár, á eftir ÍBV árið 2004 og fyrsta liðið utan höfuðborgarsvæðisins til að vinna Íslands- eða bikarmeistaratitilinn í fimmtán ár.

Þá náði Rut þeim merka áfanga á dögunum að leika sinn hundraðasta leik fyrir Íslands hönd og varð með því tíunda konan sem nær þessum áfanga. Hún var eini eftirstandandi leikmaður Íslands, í hópnum sem mætti Svíþjóð og Serbíu á dögunum, úr liðinu sem fór á þrjú stórmót í röð á árunum 2010-2012, en Karen Knútsdóttir og Arna Sif Pálsdóttir gætu bæst í þann hóp ef Ísland kemst í lokakeppni EM, sem fer fram í Slóveníu og Norður-Makedóníu á næsta ári.

„Það að Rut sé eini íslenski leikmaðurinn sem hefur orðið danskur meistari og að hún hafi leikið með bestu leikmönnum heims í einu af bestu liðum Evrópu, Esbjerg, sýnir það svart á hvítu á hvaða stalli hún er sem handboltakona“

Karen Knútsdóttir, liðsfélagi Rutar hjá landsliðinu, er jafnaldri hennar og léku þær saman upp öll yngri landsliðin. Karen segir hinn almenna íþróttaáhugamann ekki átta sig í hversu háum gæðaflokki Rut er. „Rut er náttúrulega fyrst og fremst yndisleg manneskja en við kynntumst í kringum handboltann þegar við vorum ungar og við erum mjög góðar vinkonur. Það kom snemma í ljós hversu góð Rut er í handbolta og hún var strax þegar hún var í yngri flokkunum komin með leikskilning sem var í algerum sérflokki,“ segir Karen um liðsfélaga sinn í landsliðinu.

„Það sést ekki alltaf á tölfræðinni hversu frábær leikmaður Rut er þar sem hún hugsar mikið um samherja sína og það sem hún gerir inni á vellinum skilar sér ekki að öllu leyti inn í tölfræðina. Hún er algjör handboltaheili og það er gríðarlega gaman að spila með henni og tala við hana um handbolta,“ segir Karen.

„Þrátt fyrir að við Rut höfum spilað saman í landsliðinu í tæpa tvo áratugi þá er hún enn þá að koma mér á óvart með gæðum sínum og leikskilningi inni á vellinum. Það að Rut sé eini íslenski leikmaðurinn sem hefur orðið danskur meistari og að hún hafi leikið með bestu leikmönnum heims í einu af bestu liðum Evrópu, Esbjerg, sýnir það svart á hvítu á hvaða stalli hún er sem handboltakona,“ segir landsliðsfyrirliðinn.

„Rut á stóran þátt í árangri KA/ Þórs, en hún kom á hárréttum tíma inn í ungt og efnilegt lið sem hafði verið í mótun þar í nokkurn tíma. Rut gerir samherja sína betri, auk þess að draga vagninn sjálf oft og tíðum. Bæði inni á vellinum og utan hans er hún líka frábær manneskja og mikill karakter sem gefur mikið af sér,“ segir Karen.

„Það er fátt annað sem kemst að hjá henni og okkur ef því er að skipta en handboltinn, en ég hlakka mikið til þess að við fáum tíma til að finna eitthvert áhugamál þegar handboltaferlinum lýkur. Rut er mikil fjölskyldukona sem hugsar vel um sig og sína. Það er mjög gaman að vera í kringum hana,“ segir Karen um vinkonu sína.