Ökumennirnir í Formúlu 1 munu um helgina glíma við erfiðar aðstæður, vægast sagt. Keppt verður á götubraut í Singapúr sem er við fullkomnar aðstæður ansi erfið braut að aka um á en búast má við því að keppni helgarinnar muni reyna ennþá meira á ökumenn.

Samkvæmt verðurspám er grenjandi rigning alla helgina í Singapúr sem mun gera áskorunina fyrir ökumenn mun meiri.

Götubrautin sem keppt er á í Singapúr er talin með erfiðari brautum á Formúlu 1 tímabilinu. Einbeitingarleysi í eina sekúndu getur orðið til þess að þú endir í öryggisveggjunum við brautina.

Þá er hita- og rakastigið á svæðinu einnig mikið og jafnan eru ökumenn að missa um 3-4 kíló á meðan að keppninni stendur.

Það verður því áhugavert að sjá hvernig ökumenn ná að aðlagast þeim erfiðu aðstæðum sem boðið verður upp á um helgina en vænta má að ekki allir ökumenn munu skila bílum sínum í endamarkið á sunnudaginn.

Hér fyrir neðan má sjá umræðu úr Íþróttavikunni með Benna Bó sem var á dagskrá Hringbrautar í kvöld. Þar fóru Formúlu 1 spekúlantarnir Aron Guðmundsson og Bragi Þórðarson yfir sviðið í mótaröðinni og keppnishelgina fram undan.