„Þetta var ótrúlega góður leikur af okkar hálfu, við spiluðum fasta og góða vörn og vorum agaðari í sóknarleiknum en oft áður svo það er óhætt að tala um framfarir í kvöld,“ sagði Arna Sif Pálsdóttir, línumaður Íslands í leikslok.

Ísland tapaði naumlega 25-26 gegn Svíþjóð á Ásvöllum í æfingarleik þar sem Ísland fékk tækifæri til að stela jafntefli gegn gríðarsterku liði Svía.

„Auðvitað eru 1-2 færi eða 2-3 mistök sem hefðu mátt fara betur í dag og þá væru úrslitin önnur. Við setjum fimmtán mörk á Svíþjóð gegn 6-0 vörninni þeirra í fyrri hálfleik og spiluðum harðan bolta til að mæta vörninni þeirra.“

Það eru yngri stelpur að koma í stærri hlutverk hjá landsliðinu og tekur Arna því fagnandi.

„Í hreinskilin vissi ég ekki hverju ég ætti að búast við fyrir landsleikjahléið, ég vissi ekki hvort að það myndi allt smella í dag gegn gríðarlega sterku sænsku liði en það var ótrúlega margt jákvætt í þessum leik þótt að við höfum tapað með einu.“

Hún segir liðið stefna á sigur á laugardaginn þegar liðin mætast á ný.

„Við munum fínpússa leikinn okkar og við munum jafnvel gera enn betur á laugardaginn. Þær verða búnar að skoða vörnina okkar betur og ég á von á því að bæði lið spili jafnvel betur.“

Arna kvaðst taka því fagnandi að fá stórt hlutverk inn á línunni.

„Ég reyni að skapa mér færi eða opna svæði fyrir liðsfélaga mína og þetta var alveg frábært. Ég elska að spila svona leiki þar sem ég er algjörlega búin á því eftir leiki, þá veit ég að ég var að gera eitthvað rétt.“