Hamilton hefur þar af leiðandi tryggt sér titilinn nú þegar tveir kappakstarar eru eftir af keppnistímabilinu. Þá vantar hann einn titil þess að jafna met Michael Schumacher yfir fjölda titla á ferli sínum.

Fréttablaðið fékk Kristján Einar Kristjánson, sérfræðing um Formúlu 1, til þess að fara yfir þetta afrek og reyna að lýsa því hver er galdurinn á bakvið frábæran árangur breska ökuþórsins.

„Hamilton hefur fyrir löngu sannað að hann er kominn á stall með goðsögnum Formúlu 1-sögunnar en það er erfitt að bera ökuþóra saman á milli tímabila.

Ég skal vel viðurkenna það að fyrir svona þremur árum síðan þá gaf ég Hamilton ekki það hrós sem hann á skilið og ég sá ekki fyrir mér að hann myndi ná þessum stöðugleika.

Það er viðeigandi að hann klári þetta í Bandaríkjunum þar sem hann er bæði mjög vinsæll þar og þá kann hann mjög vel við sig austanhafs,“ segir Kristján Einar um Hamilton.

Þarf meira til en að vera á besta bílnum

„Hann hefur allan pakkann og er ótrúlega góður að snúa aðstæðum sér í vil. Það var á einhverjum tímapunkti talað um að hann væri að græða mjög mikið á því að vera á besta bílnum.

Vissulega er Mercedes Benz með mjög góðan bíl en það þarf svo að beita bílnum rétt þegar út á brautina er komið. Ferrari kom fram með bíl á þessu tímabili sem er mjög kraftmikill og Hamilton talaði um það sjálfur að Mercedes Benz þyrfti að bregðast við svo góður væri bíllinn.

Hamilton og teymið í kringum hann nær hins vegar ávallt að hafa bestu taktíkina hverju sinni og spila betur úr þeim aðstæðum sem koma upp en andstæðingurinn,“ segir Kristján Einar enn fremur.

Hefur sýnt afar mikinn stöðugleika

„Sem dæmi um færni Hamilton þegar út í kappaksturinn er komið á sunnudögum er að hann hefur verið sjaldnar á ráspól en keppinautar sínir á þessu tímabili.

Samt er hann búinn að vinna titilinn þegar tveir kappakstrar eru eftir. Þá er hann búinn að sýna fáránlegan stöðugleika síðustu tímabil og það hvernig hann bregst við aðstæðum með teyminu í kringum liðið er aðdáunarvert.

Hamilton er mikið með í ráðum hvað varðar þróun á bílnum, hvernig taktíkin er þegar út í kappaksturinn er komið og annað í þeim dúr. Það er ekki síst honum að þakka hversu heildarpakkinn á Mercedez bílnum er góður,“ segir hann um lykilinn að þessum magnaða árangri.

Vill að öllum líkindum allavega jafna Schumacher

„Hamilton er klárlega á hátindi ferilsins núna en það er ómögulegt að segja hversu lengi hann getur haldið sér á þessum stalli. Það eru eldri ökumenn en hann að keppa núna og ekkert sem bendir til þess að hann sé að fara að slá slöku við eitthvað á næstunni.

Hann hefur ýjað að ýmsu með framtíð sína en ekkert sem leiðir að því að hann sé að fara að hætta. Hamilton veit af meti Schumacher og vill pottþétt jafna það allavega og svo slá það í kjölfarið.

Þá hefur hann talað um þær reglubreytingar og breytingar sem boðaðar hafa verið á bílum keppninnar árið 2021 af miklum áhuga þannig að ég held að við fáum á njóta snilli hans eitthvað áfram allavega,“ segir hann um framhaldið hjá Hamilton.