Félög ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eyddu samanlagt 815 milljónum punda í nýja leikmenn í félagskiptaglugga janúar. Þetta kemur fram í samantekt Deloitte Sport Buisness Group á viðskiptum félagskiptagluggans.
Af þessum 815 milljónum punda, sem jafngilda tæpum 142 milljörðum íslenskra króna, á Chelsea 37% af heildareyðslu félaganna í ensku úrvalsdeildinni, rúmar 301 milljónir punda. Þar með talið eru kaup félagsins á argentínska miðjumanninum Enzo Fernandez frá Benfica en Chelsea greiddi 106.8 milljónir punda fyrir hann.
Eyðsla félaganna í ensku úrvalsdeildinni var næstum þrisvar sinnum hærri núna í janúar heldur en fyrir ári síðan árið 2022.
Þá er heildareyðsla þeirra á yfirstandandi tímabili komin upp í 2.8 milljarða punda, sem er bæting á meti sem sett var í eyðslu tímabilið 2017-2018 og nam 1.9 milljörðum punda.
Félög ensku úrvalsdeildarinnar eyddu meiri fjármunum í nýja leikmenn heldur en félög hinna stærstu deildanna í Evrópu samanlagt.