Armenía komst yfir á 36. mínútu leiksins en þá setti Kamo Hovhannisyan boltann í netið. Svo virtist sem boltinn hefði farið út af vellinum í aðdraganda marksins en dómarateymið var hins vegar ekki sammála því og markið fékk að standa. Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfarar Íslands, gerðu tvær skiptingar í hálfleik. Daníel Leó Grétarsson leysti Brynjar Inga Bjarnason af hólmi í hjarta varnarinnar og Ísak Bergmann Jóhannesson kom inná fyrir Viðar Örn Kjartansson.

Ísak Bergmann var yfirvegaður og skilvirkur þegar hann jafnaði metin á 78. mínútu leiksins. Birkir Már Sævarsson, elsti leikmaður íslenska liðsins, lagði þá boltann á Ísak Bergmann sem kláraði færið af stakri prýði. Þar með varð Ísak Bergmann orðinn yngsti markaskorari í sögu íslenska landsliðsins en Skagamaðurinn varð 18 ára gamall í mars síðastliðinn. Ísak Bergmann skákaði föðurbróður sínum Bjarna Eggerts Guðjónssyni sem var yngsti markaskorarinn fyrir þetta mark.

Valli

Slök mæting:

Samkvæmt skýrslu KSÍ voru 1697 áhorfendur á vellinum en miðað við lög og reglur hefðu 6 þúsund áhorfendur geta mætt á völlinn. Málið var til umræðu í útvarpsþætti Fótbolta.net á X977 í gær. „Það voru 1600 og eitthvað manns. Á bikarúrslitaleik Víkings og ÍA seldust fleiri miðar upp á tíu mínútum en voru á þessum leik," sagði Elvar Geir Magnússon annar af stjórnendum Fótbolta.net. Bikarúrslitaleikurinn fer fram um næstu helgi og hafa selst rúmlega 3 þúsund miðar.

Af þeim 1600 sem mættu á völlinn voru flestir í boði KSÍ. „Við vorum að heyra tölur um selda miða, rétt undir 200," sagði Elvar Geir.

Ljóst er að lífið breytist hratt á gervihnattaöld. Fyrir örfáum árum síðan voru 10 þúsund miðar seldir á einu augabragði, líklega hefðI KSÍ um tíma geta selt um 30 þúsund miða. Erfiðleikar innan sem utan vallar hafa svo orðið til þess að áhugi fólk á landsliðinu er lítill sem enginn.

Liðið mætir Liechtenstein á morgun og má búast við að erfitt verði að fá fólk á völlinn. „Hvað verða margir á leiknum á mánudag, það er ekki búið að leysa nein utanaðkomandi mál. Erum við að fara undir þúsund í fyrsta sinn?," sagði Tómas Þór Þórðarson um málið.

Magnús Már Einarsson benti svo á þá staðreynd fleiri stuðningsmenn hefðu oftar en ekki mætt á útileiki þegar allt var í blóma hjá karlalandsliðinu. „2013 til 2018 var þetta fjöldinn á útivöllum. Þegar mikið var undir í undankeppnum og svo á EM og HM. Ef allt þetta fólk var að ferðast fleiri þúsund kílómetra til að sjá liðið, þá hlýtur það lið að geta rúllað í Laugardalinn," sagði Magnús.